Kveikjan að þessu bloggi er sú að vinur minn Ragnar Axelsson - oftast kallaður Raxi - hefur lokið starfi sínu sem ljósmyndari Morgunblaðsins.
Sumir kunna að spyrja sig hvað er svona merkilegt við það? Jú, að mínu mati er Ragnar allra verðmætasti blaðamaður Moggans fyrr og síðar, með fullri virðingu fyrir öllu því góða fólki sem þar hefur starfað. Það er kannski tímanna tákn að hann hverfi af síðum Morgunblaðsins.
Alvöru fréttaljósmyndun hefur vikið fyrir "click-bait" fyrirsögnum. Ég er löngu hættur að skoða fréttasíður á vefnum því það er ekkert innihald lengur. Það hefur vikið fyrir athyglisbresti nútímans. Fréttir eru orðnar afþreying.
Og því er fullkomlega eðliegt að Raxi finni sér annan farveg. Hann er ekki í afþreyingarbransanum. Hann fjallar um samtímann á hlutlausan hátt. Líkt og alvöru blaðamenn eiga að gera.
Ragnar hefur fangað fjölbreytileika lífsins á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi og í raun alls staðar sem hann kemur. Myndirnar hans eru ekki bara listaverk, þær endurspegla þá manneskju sem hann er. Þær eru heiðarlegar, kærleiksríkar og mannlegar.
Að baki býr ástríða og þrotlaus vinna. Raxi hefur stóra gjöf. Þeirri gjöf hefur hann deilt með okkur á síðum Moggans og í gegnum bækur sínar og ljósmyndasýningar í rúma fjóra áratugi. Allir sem hafa vott af áhuga á ljósmyndun þekkja myndirnar hans. Þær hafa borið af og vakið tilfinningu í hjörtum okkar. Það eru engin "trix" í verkum hans, bara sannleikur og mannúð.
Ég kynntist Raxa fyrst af alvöru þegar endurprenta átti bókina Veiðimenn norðursins - og á sama tíma var Fjallaland gefin út. Við láum yfir myndunum saman á vinnustofunni minni og ég fylgdi svo bókunum eftir í prentsmiðjuna á Ítalíu. Að vinna náið með slíkum meistara og upplifa auðmýkt hans er magnað. Hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur (hann er reyndar algjör töffari þegar kemur að klæðaburði). Í framhaldinu höfum við átt gæðastundir saman yfir bókunum Andlit norðursins og Jökull.
Ég veit að þessi tímamót eru tilfinningablandin, fyrir hann og marga aðra. Mogginn án Rax verður ekki samur. En þó að þessi skrif hljómi kannski eins og minningargrein þá veit ég að Raxi er rétt að byrja. Hann hefur gríðarlegt keppnisskap og á eftir að halda áfram að deila með okkur gjöfinni sinni.
Ég hlakka til að sjá elsku vinur.
Comments